Þegar maður hendir sér út í djúpu laugina....

 ... þá er bara að vona að ég nái landi. Smile 

Ég (eigandi þessarar síðu) gef kost á sér í 2-3 sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Íslenskt samfélag er að ganga í gegnum miklar breytingar um þessar mundir og ég vill leggja mitt af mörkum til þess að það komi til með að einkennast af grunngildum jafnaðarstefnunnar; kvenfrelsi, lýðræði og jöfnuði. Samfélagið kallar á endurnýjun og það liggur fyrir við verðum að endurmeta okkar stöðu. Við verðum að hafna þeim gildum nýfrjálshyggjunnar sem hafa riðið hafa yfir samfélagið með vaxandi ójöfnuði og græðgihyggju í valdatíð Sjálfstæðisflokksins, og að því er ég tilbúin að vinna.

Ég vill að vinna að því að búa til nýtt samfélag þar sem leikreglur eru skýrar og gegnsæjar, þar sem lýðræði, réttlæti og mannréttindi eru ekki eingöngu í orði heldur líka á borði. Ég vill taka þátt í að móta samfélag þar sem almannahagsmunir ganga fyrir sérhagsmunum ákveðinna hópa. Ég vill skapa það samfélag þar sem landsbyggðin fær að njóta tækifæra sinna til jafns á við höfuðborgarsvæðið, enda tel ég að hagsmunir landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins fari saman að þessu leyti.

Nýsköpun, menntun og rannsóknir sem byggja á grunnatvinnuvegum okkar og auðlindum með skírskotun í menningu okkar eiga eftir að fleyta okkur inn í framtíðina. Til þess að tryggja almenningi og íslensku atvinnulífi stöðugleika og efnahagslega velsæld til lengri tíma, er afar mikilvægt að sækja sem fyrst um aðild að Evrópusambandinu. Það verkefni verðum við að setja í forgang til að flýta fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Við þurfum gjaldmiðil sem nýtur traust á alþjóðavettvangi og er upptaka evru eini raunhæfi kosturinn í stöðunni.

Ég er fædd 30.maí 1976 á Ísafirði og er í sambúð með Haraldi Kristinssyni tölvunarfræðingi. Við eigum tvær dætur, Hafdísi f. 1998 og Helenu f. 2003. Ég varð stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1996 og hóf nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands sama ár. Ég lauk BA-prófi stjórnmálafræði árið 2000 og hef jafnframt lagt stund á meistaranám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og við viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. 

Ég hef á undanförnum árum starfað við nýsköpun og atvinnumál, fyrst hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og nú sem verkefnisstjóri Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Ísafirði. Ég hef setið í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frá árinu 2006 og í stjórn Sjúkratrygginga Íslands frá árinu 2008, auk margvíslegra annarra félagsstarfa. Ég tel að þessi reynsla mín geti nýst við að takast á við verkefni dagsins í dag og leggja grunninn að samfélagi með gildi jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi.

Arna Lára Jónsdóttir 

- - - - - --  

 Ég hef ekki snert þessa síðu í á annað ár og þurfti aðeins að rifja upp hvernig þetta virkar allt saman. En síðan er kjörin vettvangur til þess að koma skoðununum mínum á framfæri sérstaklega á þessum tímum. Smile 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Óska þér alls hins besta, kveðja úr Húnaþingi vestra Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.2.2009 kl. 09:05

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Var að skoða næstu færslu á undan og þar vitnar þú í Guðna Ágústsson sem talað um að frambjóðendur fari í litgreiningu og til ímyndarráðgjafa.

Ég skipaði 1. sætið hjá Þjóðarflokknum í NV kjördæmi í lok 9. áratugarins. Þá var litgreiningin inn. Daginn eftir framboðsfund í Sjónvarpinu var fundur Hvammstanga.

Frammi í anddyri fyrir fundinn kemur til mín frændi minn og segir "heyrðu frænka, ertu greind" konan hans bregst ókvæða við og veitir honum tiltal fyrir þessa ókurteisi. Ég fattaði hinsvegar grínið í það sinn og svarðir með bros á vör. "Nei, ég er ekki greind" Úr þessu varð á endanum mikið sprell. Frænda fannst ég nefnilega hafa komið býsna vel litfræðilega séð á skjánum. Bara gott mál.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.2.2009 kl. 16:51

3 Smámynd: Arna Lára Jónsdóttir

Já það er spurning um nota litgreininguna aftur núna. Er ekki verið að kalla eftir gömlu tímunum.  Ég hef nú aldrei fengið úr því skorið hvort ég er sumar eða vor. Við sjáumst á Hvammstanga í vikunni.

Arna Lára Jónsdóttir, 22.2.2009 kl. 20:31

4 identicon

sæl mér lýst vel á framboð þitt en langar að vita eitt því ég hef ekki tækifæri á að mæta á neina af þessum framboðsfundum sem boðaðir eru. Hver er afstaða þín til olíuhreinsunarstöðvar í ketildölunum?

gangi þér vel og vonandi gengur þér vel í prófkjörinu

kv. Þórunn 

Þórunn (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 01:42

5 Smámynd: Arna Lára Jónsdóttir

Ég er alfarið á móti hugmyndum um olíuhreinsistöð. Við getum gert svo margt annað okkur til viðurværis. Við gætum til dæmis fengið að nýta okkar dýrmætu fiskimið. Það hugnast mér mun betur, við höfum allavega mikla þekkingu á að verka fisk.

Það er leiðinlegt að þú skulir ekki komast á framboðsfundina okkar, Þórunn.

Arna Lára Jónsdóttir, 28.2.2009 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband