Aðild að Evrópusambandinu og endurreisn efnahagslífsins

Íslenskt samfélag er að ganga í gegnum mikla erfiðleika um þessar mundir. Við þurfum að endurmeta stöðu okkar. Við höfum ekki efni á þeirri samfélagslegu neyslu sem hefur viðgengst. Við þurfum að fara að forgangsraða verkefnum og spyrja okkur hvað sé nauðsynlegt og hvað við getum verið án.  Síðustu ár hafa einkennst af efnahagslegri velsæld (að við héldum) en í slíku árferði fer ekki mikið fyrir pólitískri umræðu.  Umræðan hefur að mestu snúist um hvað hver fær og hve mikið. Þingmenn og ráðherrar hafa keppst um að fá sem mest fyrir sitt kjördæmi og árangur þeirra er metinn  eftir þeim mælikvarða.  Kjördæmi og sveitarfélög hafa til þessa þurft að berjast um pólitíska bitlinga. Nú er svo komið að við þurfum að fara að  horfa á landið heildstætt. Hagsmunir landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins fara saman, og með styrkingu landsbyggðarinnar styrkist höfuðborgarsvæðið.

Aðild að Evrópusambandinu getur spilað lykilhlutverk í því að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Almenningur og fyrirtækin í landinu verða að búa við efnahagslega stöðugleika, sem felur í sér trúverðugan gjaldmiðil, lága vexti og verðbólgu í lágmarki, auk þess sem hægt væri að losna við verðtrygginguna.  Þegar er rætt er um aðildarviðræður við Evrópusambandið þá verður andstæðingum ESB tíðrætt um hagsmuni sjávarútvegsins og landbúnaðarins. Rök fræðimanna eins og Aðalsteins Leifssonar, Eiríks Bergmanns og Baldurs Þórhallssonar vega oft lítið í þeirri umræðu.  Forsvarsmenn þessara atvinnugreina verða einfaldlega að setjast niður og skilgreina hvað þeir vilja fá út úr aðildarviðræðum. Með þau markmið verði farið með til Brussel og reynt að ná ásættanlegum samningum. Niðurstaðan verði í kjölfarið lögð fyrir þjóðina.  Það er ansi hart að ekki skuli vera hægt að ræða í alvöru eitt stærsta hagsmunamál almennings vegna sérhagsmuna ákveðinna hópa í samfélaginu.

Í þeim hremmingum sem við erum í, er mikilvægt að auka gjaldeyristekjur svo hægt sé að greiða niður erlendar skuldir. Þá þurfum við að einblína á atvinnugreinar sem eru til þess fallnar. Sjávarútvegur, ferðaþjónusta og iðnaður spila þar stórt hlutverk, en það vill svo til að í þessum atvinnugreinum liggja styrkleikar landsbyggðarinnar. Það er því forgangsmál næstu ríkisstjórnar að laga þann aðstöðumun milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins sem m.a. liggur í háhraðatengingum, raforku, fjarskiptum og samgöngum til þess að landsbyggðin geti komið að endurreisn íslensks samfélags sem hún hefur svo sannarlega burði til.

Við þurfum að svara erfiðum spurningum t.d um hvar eigi að skera niður, hvernig ætlum við að dreifa birgðunum, á hvaða atvinnustarfsemi ætlum við að einblína á, hverjir eiga nýta auðlindirnar okkar og hvernig.  Það er gríðarlega mikilvægt að við svörum þessum spurningum með grunngildi jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi, jafnræði, kvenfrelsi, samábyrgð. Við þurfum að taka stóru málin til umræðu og útkljá; má þar nefna tvö brýnustu mál okkar samfélags. Annars vegar innganga í Evrópusambandið og upptaka Evru og hins vegar endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Arna Lára Jónsdóttir býður sig fram í 2-3 sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Ég er einn af þeim sem tel að innganga í Evrópusambandi muni hjálpa okkur almenningi í landinu mikið, lægri vextir og lítil verðbólga, stöðugleiki sem við þurfum til að plana okkar líf... það þarf að fara að kynna okkur enn betur kosti og galla þess að ganga í Evrópusambandið... skil ekki alveg ótta þeirra sem segja að við munum missa sjálfstæði okkar við inngöngu...

Brattur, 5.3.2009 kl. 23:09

2 Smámynd: Guðmundur Björn

Fyrirgefðu Arna mín, en hvað á ESB að gera fyrir landið?

Guðmundur Björn, 5.3.2009 kl. 23:53

3 Smámynd: Guðmundur Björn

Þú talar bara um að taka upp Evruna en ekki um aðra þætti inngöngu?

Guðmundur Björn, 5.3.2009 kl. 23:55

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæl Arna

Já ESB er stóra skrefið framundan. Byggðastefna sambandsins er okkur hagstæð þar sem landið okkar telst á harðbýlu svæði, fyrir norðan 62. breiddargráðu og er því með ýmsa styrki til hinna dreyfðu byggða sem ekki eru í boði fyrir lönd sunnar í álfunni. Yfir þessu þeygja bændur þunnu hljóði, en ég gat ekki betur heyrt frá Búnaðarþingi að nú sé verið að boða alls kyns aukabúskap sem fellur mög vel að styrkjakerfi EB eins og ég skil það.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.3.2009 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband