Uppbygging atvinnuvega í nýjum aðstæðum

Í kjölfar efnahagshrunsins er ljóst að við Íslendingar þurfum að fara að hugsa upp á nýtt.  Hvernig ætlum við að byggja Ísland upp að nýju. Við erum í þeirri erfiðu stöðu að skulda gríðarlega háar fjárhæðir erlendis. Til að geta greitt niður erlendar skuldir okkar verðum við að flytja meira út en við flytjum inn.  Einblína þarf á þær atvinnugreinar sem geta skapað okkur útflutningstekjur.  Ferðaþjónusta, iðnaður og sjávarútvegur koma sterkar inn í þessu sambandi, en það vill svo til að þessar atvinnugreinar eru afar sterkar hér í okkar kjördæmi.  Aukin nýsköpun og vöruþróun í þessum atvinnugreinum í tengslum við uppbyggingu þekkingar geta skilað okkur árangri til framtíðar og markað okkur leið úr þeim efnahagslegu ógöngum sem við erum í.  Við þurfum að skilgreina sérkenni og styrkleika hvers svæðis og tengja það þekkingarsköpun.

Hagnýtar rannsóknir og atvinnulífið

Uppbygging þekkingarsetra er mikilvægur þáttur í því að styrkja samkeppnishæfni svæða, þar sem hagnýtar rannsóknir og tengsl við atvinnulífið fara saman. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til að sjá árangur af slíkri starfsemi.  Má þar nefna Háskólasetur Snæfellsness sem var stofnað vorið 2006 og hefur því starfað í tæp þrjú ár. Þar starfa 4 starfsmenn í dag auk framhaldsnema og veltir setrið rúmum 69 milljónum á ári en ekki þarf mörgum blöðum að flétta um mikilvægi þessarar starfsemi fyrir samfélagið á Snæfellsnesi og atvinnulífið þar. Við þekkjum fleiri dæmi um atvinnusköpun af þessum toga mætti þar nefna stofnun fræðasetra í Bolungarvík, Þróunarsetur og Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði,  Skor á Patreksfirði, Verið  á Sauðárkróki, Þróunarsetrið á Hólmavík auk stóru háskólanna Bifröst, Landsbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskólans á  Hólum.  Það er einmitt í umhverfi þekkingarsetra þar sem myndast þessi margumtalaði krítíski massi fyrir gerjun hugmynda og um leið grunnur fyrir þverfaglegt samstarf. Þekkingarsetrin víða um land eru mikilvægur þáttur í því að örva nýsköpun í fyrirtækjum og efla samkeppnishæfni, þess vegna er afar mikilvægt að stuðla að vexti þeirra og umgjörð.

Menningartend ferðaþjónusta

Miklir möguleikar eru fyrir hendi í þróun ferðaþjónustu sem byggir á menningu okkar, sögu og  arfleifð. Nú þegar eru fyrir hendi árangursrík dæmi um velheppnaða ferðaþjónustu sem byggja á sérkennum og sérstöðu svæða, sem hafa mikil efnahagsleg og samfélagsleg áhrif á sitt nærumhverfi. Í því samhengi er vert að nefna Galdrasýninguna á Ströndum og Landnámsetrið í Borgarnesi. Það er ekki  síst vegna þessara dæma sem við eigum að vera óhrædd við að horfa á ferðaþjónustu sem eina af burðaratvinnugreinum framtíðarinnar þó margt sé ógert í grunngerðinni.

Verkefni næstu ára eru krefjandi og ber þar hæst endurreisn efnhagslífsins. Það kemur m.a.  í hlut þingmanna þessa kjördæmis að búa til lífvænleg rekstrarskilyrði fyrir atvinnugreinar á landsbyggðinni. Það er ekki síst í þessu árferði sem við þurfum að hugsa til framtíðar og huga að atvinnugreinum sem geta skilað okkur út úr þeirri kreppu sem við erum í.  Íslenskur landbúnaður  er annar hornsteininn í  íslenskri matvælaframleiðslu. Við þurfum að treysta rekstrarskilyrði hans svo hann fái fullnýtt tækifæri sín á sviði fullvinnslu og nýsköpunar.

Uppbygging atvinnuvega í nýjum aðstæðum byggir fyrst og fremst á því næstu misserin að skapa útflutningstekjur og er þá afar mikilvægt að skapa útflutningsatvinnuvegunum samkeppnishæf rekstrarskilyrði, þá þurfum við að vera óhrædd við að fjárfesta í samgöngubótum á láði og legi auk þess  að taka upp stöðugan gjaldmiðil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband