Slæmt veðurkarma

Það er svo merkilegt hvað ég er oft veðurteppt, en ég ræð ekki við veðrið (þótt ég gjarnan myndi vilja). Í kvöld á ég að vera á framboðsfundi á Þingeyri en sit í staðinn við eldhúsborðið hjá mömmu í Hafnarfirði. Ég vona að Dýrfirðingar fyrirgefi mér það Smile

Ég set hérna inn grein lýsir helstu áherslum mínum  - ef greinin á bb.is hefur farið framhjá einhverjum. Greinarnar standa svo stutt inni núna - þar sem það er prófkjör framundanWink

Byggjum gott samfélag á grunni jafnréttis

Um næstu helgi fer fram prófkjör Í-listans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara í maí nk. Ég hef ég ákveðið að gefa kost á mér áframhaldandi setu í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir hönd Í-listans. Helstu hugðarefni mín hafa verið á sviði atvinnumála og nýsköpunar, bæði sem verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og sem bæjarfulltrúi. Heilbrigt atvinnulíf er undirstaða öflugs velferðarkerfis þess vegna er afar mikilvægt að hlúa að atvinnulífinu og treysta grunnstoðir í samfélagsins. Við Vestfirðingar höfum því miður ekki búið við sömu skilyrði og aðrir landshlutar, má þar nefna helst samgöngur, raforkuöryggi, gagnaflutningar, flutningskostnað. Þessar grunnstoðir þurfa að vera í lagi ef byggja á upp öflugt atvinnulíf. Sveitarfélögum ber að skapa atvinnulífinu góða umgerð til vaxtar. Tel ég mig hafa þó nokkuð fram að færa í þeim efnum.

Það verður eitt brýnasta verkefni næstu bæjarstjórnar að halda uppi núverandi þjónustustigi og gera betur, á erfiðum tímum í rekstri bæjarfélagsins. Það verður krefjandi að leita leiða að tryggja íbúum Ísafjarðarbæjar góða þjónustu og um leið að borga niður uppsafnaðar skuldir bæjarsjóðs, ég er tilbúin til að takast á við það verkefni.

Á næstu árum stöndum við frammi fyrir tveimur stórum verkefnum sem ekki verður hjá komist, má þar nefna fyrst byggingu hjúkrunarheimilis. Það er okkar hlutverk að búa vel að öldruðum í sveitarfélaginu, fólkinu sem byggði upp samfélagið okkar. Það er öldruðum ekki bjóðandi að búa á sjúkrahúsi , tveir og þrír saman í herbergi. Hitt stóra verkefnið er að finna frambúðarlausn á sorpmálum sveitarfélagsins sem byggir á ábyrgð og virðingu fyrir umhverfinu.

Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að byggja upp gott velferðarsamfélag í Ísafjarðarbæ, en það vil ég gera á grunni jafnréttis, jöfnuðar og sjálfbærar þróunar. Þá vil ég leggja áherslu á að stjórn bæjarfélagsins verði byggð á sjónarmiðum um gegnsæi, heiðarleika og vandaða stjórnsýslu, þar sem almannahagsmunir eru ávallt settir ofar sérhagsmunum.

Með ósk um meðbyr í prófkjöri Í-listans 27. febrúar nk.

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband