Atvinnumál
Föstudagur, 2.3.2007
Enn eru að berast fréttir af uppsögnum og nú síðast rannsóknarstofan Agar og bætast nú tvö störf í viðbót á listann: Töpuð störf. Spurning hvar þessi óheillaþróun endar. Nú er ekkert sem heitir fyrir okkur en að reyna að standa í lappirnar og snúa þessari þróun við.
Kolla Sverris hitti naglann á höfuð reyndar eins og margt oft áður þegar hún lét þessi orð falla atvinnuástandið á svæðinu:
NEI nú segjum við stopp Vestfirðingar sama hvar í flokki við erum. Við látum ekki bjóða okkur meir, það er kominn tími á uppgjör þar sem að menn þurfa að átta sig á að byggðunum blæðir á meðan sameiginlegir sjóðir okkar landsmanna fara aðallega í uppbyggingu á stór-Reykjavíkursvæðinu. Valdníðsla og hroki verður ekki lengur liðin af ríkisvaldinu stöndum saman sem einn maður og krefjumst breytinga
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar stóð saman að tveimur tillögum í gær um atvinnumál. Ég tel það vera mjög mikilvægt að við getum verið samstíga þegar svona miklir erfiðleikar steðja að samfélaginu.
Tillögur okkar fela m.a. í sér eftirfarandi aðgerðir:
- Stofnun Hornstrandastofu
- Orkubús Vestfjarða í tengslum við sameiningu við Rarik og Landsvirkjun, þar sem lögð er áhersla á að höfuðstöðvar sameinað fyrirtæki Rarik og Orkubúsins verði á Ísafirði.
- Styrking iðnmenntunar
- Frumkvöðlasetur skv. tillögum um eflingu nýsköpunar
- Eflingu Fjölmenningarseturs
- Fjölgun starfa hjá Vegagerðinni á Ísafirði
- Stofnunar á nýrri stofnun sem verði alþjóðleg rannsóknarstofnun í jarðkerfisfræðum.
- Háskólasetur Vestfjarða verði Háskóli Vestfjarða strax
- Fjölgun rannsóknarstarfa í sjávarútvegi
- Aðgerðir til lækkunar flutningskostnaðar
Eins og margoft hefur komið fram þá er enginn skortur á hugmyndum eða tillögum heldur þarf ríkisstjórnin í samstarfi við heimamenn að bretta upp ermar og hefjast handa.
Athugasemdir
Arna mín oft var þörf en nú er nauðsyn að standa saman öll sem eitt. Þetta er okkar allra framtíð.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.3.2007 kl. 19:50
...ég man vel orð eins og "niðurrifsöfl" og "svartsýnisraddir" þegar við bentum á augljós merki um í hvað stefndi í atvinnumálum bæjarins í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. En menn stungu höfðinu í sandinn og lýstu allt öðrum veruleika en við blasir nú. Þá þegar hefði sú samstaða sem nú er uppi þurft að vera til staðar og við hefðum getað nýtt þennan vetur betur til að herja á um bættan hag fyrir bæjarfélagið okkar. Betra er seint en aldrei og vonandi dugar það til að við leggjumst öll á árar nú og róum lífróður fyrir fólkið sem hér býr og afkomu þess.
Rannveig Þorvaldsdóttir, 2.3.2007 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.