Gjaldfrjáls menntun frá leikskóla til háskóla
Þriðjudagur, 8.5.2007
Ég skrifaði grein í 1.maí blað Skutuls sem er málsgagn Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ, ég læt hana flakka hér líka. Útbreiðsla Skutuls er enn takmörkuð við Ísafjarðarbæ en þetta flotta blað á að sjálfsögðu erindi út fyrir bæjarmörkin
Landsfundur Samfylkingarinnar sem haldinn var 13.-14. apríl síðastliðinn samþykkti stefnuyfirlýsingu sem er einföld en fjallar um afar mikilvægt hagsmunamál fyrir barnafjölskyldur í landinu. Samfylkingin vill:
Stuðla að því að öllum standi til boða gjaldfrjáls menntun frá og með leikskóla til og með háskóla.
Við höfum flest þá framtíðarsýn að byggja hér upp fjölskylduvænt samfélag. Fjölskylduvænt samfélag felur m.a. í sér gott aðgengi að menntun, nálægð barna og foreldra, ásættanlegt þjónustustig, fjölbreytta afþreyingu og öfluga menningarstarfsemi. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á val á búsetu, auk atvinnutækifæra, sem eru grundvallarforsenda sérhverrar byggðar.
Dagvistunargjöld eru einnig hluti af þessari heildarmynd sem fólk horfir til þegar það velur búsetu fyrir sig og fjölskyldu sína. Á þessu sviði stöndum við okkur sem sveitarfélag afar illa, m.a. vegna erfiðrar fjárhagstöðu og annarrar forgangsröðunar.
Dagvistunargjöld í Ísafjarðarbæ eru þau hæstu á landinu og eru ekki til þess fallin að laða til okkar barnafjölskyldur. Til samanburðar er ágætt að bera sig saman við sveitarfélögin Fjarðabyggð og Skagafjörð sem eru af svipaðri stærð og Ísafjarðarbær.
Kostnaður foreldra vegna leikskóla:
| 4 tímar | 8 tímar | Fæði |
Ísafjarðarbær | 12.624 | 25.248 | 5.940 |
Fjarðabyggð | 9.648 | 19.296 | 4.792 |
Skagafjörður | 8.500 | 17.000 | 4.536 |
*Eftirtaldar tölur eru fengnar af heimasíðum sveitarfélaganna.
Samanburðurinn leiðir í ljós að það er rúmum 31% dýrara að vera með barn í átta tíma vistun í leikskóla í Ísafjarðarbæ en í Fjarðabyggð og tæpum 49% dýrara en í leikskólum í Skagafirði. Það sem kemur líka verulega á óvart í samanburðinum er hversu miklu dýrari maturinn er í leikskólum Ísafjarðarbæjar en í hinum sveitarfélögunum. Dagvistunargjöldin eru stór útgjaldaþáttur hjá mörgum fjölskyldum. Er þetta sú umgjörð sem við viljum bjóða íbúum okkar? Þar við bætist gamaldags vegakerfi eða sú staðreynd að við erum orðin láglaunasvæði, sem er heldur ekki til þess fallið að laða til okkar fólk.
Með því að stjórnvöld ákvæðu að gera leikskólamenntun barna gjaldfrjálsa tækjum við stórt skref til að jafna kjör foreldra og samkeppnisstöðu sveitarfélaga. Þetta þýðir að öll sveitarfélög í landinu geti boðið upp á gjaldfrjálsa leikskóla en ekki eingöngu þau sem eru vel stæð. Þetta er mjög mikilvægt fyrir fjárhagslega illa stödd sveitarfélög, eins og til dæmis Ísafjarðarbæ.
Öll börn eiga rétt á því að njóta þess mikilvæga starfs sem fer fram á leikskólum, starfs sem stuðlar að þroska þeirra og velferð óháð efnahag og félagslegum aðstæðum.
Sveitarfélögin verða að fá fjármagn frá ríkisvaldinu til þess að gera þetta kleift og ég treysti Samfylkingunni til að láta þetta stóra hagsmunamál fjölskyldna í landinu og fjárvana sveitarfélaga verða að veruleika.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.