Atvinnumál á Flateyri og olíuhreinsunarstöð
Föstudagur, 25.5.2007
Vikan hefur verið ansi strembin eins oft vill verða í þeim vikum þegar bæjarstjórnarfundir eru haldnir. Á fundinum í gær voru tvö mál ansi fyrirferðamikil, atvinnumálin á Flateyri og hugsanleg uppbygging olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum. Fram kom á fundinum að ekki væri enn ljóst hvað væri búið að selja mikið af aflaheimildum á svæðinu en það á víst að skýrast í næstu viku. 36% íbúa á Flateyri störfuðu hjá Kambi - og þegar afleidd störf frá fyrirtækinu eru tekin inn í kæmi mér ekki á óvart að hátt helmingur íbúa hafi misst lífsviðurværi sitt. Það sem mér finnst slæmt í þessu er að það er lítið sem ekkert sem sveitarfélagið getur gert til að koma í veg fyrir að svona hlutir gerist. Við ráðum ekki yfir aflaheimildunum skv. núverandi kerfi og lífsviðurværi heilu byggðarlaganna eru undir örfáum útgerðarmönnum komið. Ég get ekki trúað að útgerðarmenn vilji einir bera þessa miklu samfélagslegu byrði.
Hugsanleg uppbygging olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum hefur vakið töluverða athygli undanfarið. Ég sat kynningarfund á vegum Fjórðungssambandsins og íslensks hátækniiðnaðar þar sem þeir síðarnefndu kynntu verkefnið auk þess sem valdir fyrirlesarar voru með erindi. Þetta var um margt áhugavert og ég hvet alla til að skoða erindin á heimasíðu Fjórðungssambandsins: http://www.fjordungssamband.is/?ew_news_onlyarea=ForsidaCntnt&ew_news_onlyposition=4&cat_id=1377&ew_4_a_id=3692 Ég lít svo á að við höfum einungis fengið aðra hliðina á fundinum - það má segja að þetta hafi verið svona halelúja fundur. Ég er ekki sannfærð um að þetta sé málið, við þurfum meiri upplýsingar að mínu mati. Með þessu er ég ekki að skjóta hugmyndina í kaf heldur er mörgum spurningum enn ósvarað í mínum huga. Þessi umræða var tekin upp á bæjarstjórnarfundi og þar kom í ljós að við upplifðum kynningarfundinn á mismunandi vegum en við komum okkur nú samt saman um sameiginlega tillögu um málið.
,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur til að þegar verði ráðist í þær frumrannsóknir sem þurfa að liggja fyrir áður en sveitarstjórnir á Vestfjörðum geta tekið afstöðu til hugsanlegrar olíuhreinsistöðvar í fjórðungnum. Lykilatriði er að áætlanir um uppbyggingu og rekstur slíkrar stöðvar standist íslensk lög og skuldbindingar í umhverfismálum. Jafnframt er nauðsynlegt að rannsókn verði gerð á áhrifum framkvæmdarinnar á samfélagið og að framkvæmdin muni hafa jákvæð áhrif til eflingar byggðar á Vestfjörðum."
Þriggja daga frí framundan og það búið er að lofa sumri á sunnudaginn skv. Einar Sveinbjörnssyni veðurfræðingi. Loksins. Annars ætti ég að vera að baka og þrífa þessa stundina þar sem von er á tengdamóðurinni strax í fyrramálið í stað þess að hanga á netinu.
Athugasemdir
Eins og ég held flestir Íslendingar finn ég verulega til með vestfirðingum þessa daga. Auðvitað er ótækt að leggja þá miklu samfélagsábyrgð á einn atvinnurekanda að halda fjöreggi heils byggðarlags í hendi sér. Það kann aldrei góðri lukku að stýra eins og fjölmörg dæmi hafa sýnt og sannað. Gangi ykkur annars vel.
Kristín Dýrfjörð, 27.5.2007 kl. 17:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.