Jóna Dreki
Mánudagur, 2.7.2007
Það birtist frétt á bb.is í dag að Jóna Ben hafi verið rekin úr starfi aðstoðarskólastjóra við Grunnskólann á Ísafirði vegna skipulagsbreytinga. Þessi ákvörðun var tekin á síðasta bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 21.júní sl. Við bæjarfulltrúar Í - listans lögðum til að málinu yrði frestað til haustins þar sem forsendur ákvörðunarinnar voru brostnar en á það var ekki hlustað. Fulltrúar meirihlutans sátu hljóðir og færðu engin rök fyrir ákvörðun sinni.
Tillagan okkar sem var því miður felld var á þessa leið:
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að fresta fyrirhuguðum breytingum á stjórnendaskipulagi Grunnskólans á Ísafirði þar sem útséð er að fyrirhuguð markmið með breytingunum koma ekki til með að nást. Lagt er til að strax í haust verði skipaður starfshópur með fulltrúum frá fræðslunefnd, Skóla og fjölskylduskrifstofu, skólastjórnendum og kennara sem hafi það verkefni að fara yfir skipurit grunnskóla Ísafjarðarbæjar með það að markmiði að skoða leiðir að skilvirkara stjórnskipulagi og hagræðingu í rekstri. Starfshópurinn ljúki störfum fyrir mars 2008 svo að breytingarnar geti tekið gildi skólaárið á eftir, ef einhverjar verða.
Greinargerð:
Samþykkt var í fjárhagsáætlun ársins 2007 að breyta stjórnendafyrirkomulagi við Grunnskólann á Ísafirði með þeim hætti að segja upp öðrum aðstoðarskólastjóranum til að ná fram hagræðingu í rekstri og markvissara stjórnskipulagi. Útséð er að markmiðin koma ekki til með að nást úr þessu, má í fyrsta lagi rekja það til þess að of seint er farið af stað með breytinguna. Nú þegar er hafin undirbúningur fyrir næsta skólaár og ekki er gert ráð fyrir þessum breytingum í þeim undirbúningi. Ljóst er að ef farið verið í þessar breytingar núna þá hefur það veruleg kostnaðaraukandi áhrif á grunnskólann. Í öðru lagi er ekki búið að finna mörgum verkefnum stað hjá öðru starfsfólki í nýju skipulagi sem eru nú á hendi núverandi aðstoðarskólastjóra og er hætta á því að þeim verði ekki sinnt nema með aukningu stöðugilda. Við vinnu við skipulagsbreytingar er æskilegt að horfa til annarra sveitarfélaga og bera saman rekstur annarra grunnskóla og skipulag við grunnskóla Ísafjarðarbæjar, með það fyrir augum að ná fyrrgreindum markmiðum.
Þessi fína tillaga var semsagt felld - það segir ansi margt!
Athugasemdir
Það segir ansi margt, en hvað er að gerast?
Ég hef spurt áður, en getur einhver svarað sem má svara?
Er verið að losa sig við Jónu er hún ekki nægilega stillt
Er hún of mikil kvenskörungur fyrir suma?
Æ.Æ. er einhver með minnimáttar-kennd?
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 3.7.2007 kl. 10:41
Þetta er stórt mál, sé ég og ekki öfundsvert að takast á við það í bæjarstjórn. Uppsagnir og skipulagsbreytingar eru... að verða of frasakennt fyrir minn smekk!
Edda Agnarsdóttir, 3.7.2007 kl. 10:55
Arna Lára, klukk! Skoðaðu leikinn á ýmsum síðum.
Edda Agnarsdóttir, 12.7.2007 kl. 00:55
Jæja Arna Lára hvar er listinn?
Edda Agnarsdóttir, 12.7.2007 kl. 20:55
Arna Lára, Ég er líka búin að klukka þig. Áfram með smjörið.
Bryndís G Friðgeirsdóttir, 12.7.2007 kl. 21:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.