Atvinna fyrir alla

Á landsfundi Samfylkingarinnar sem haldin var 27-29. mars sl. var samþykkt stefna til eflingar atvinnulífsins. Stefnan ber yfirskriftina Atvinna fyrir alla og er megin markmið hennar að útrýma atvinnuleysi auk þess að skapa nýjan og traustari grundvöll fyrir atvinnulífið.


Aðildarviðræður við Evrópusambandið
Meðal þess sem er lögð rík áhersla í stefnu Samfylkingarinnar í atvinnumálum er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og eru fyrir því mörg rök. Aðild að ESB og upptaka evru er grundvöllur þess að skapa til framtíðar efnahagslegt jafnvægi og heilbrigt rekstrarumhverfi fyrir atvinnulífið í landinu auk þess að laða til landsins erlenda fjárfestingu. Með aðild að ESB horfir Samfylkingin til lækkunar vaxta, afnáms gjaldeyrishafta, stöðugra verðlags og sterkari gjaldmiðils til að treysta rekstrarumhverfi fyrirtækja. Ef ekki er gripið til þessara aðgerða er hætta á að atvinnulífinu blæði út. Flestir stjórnmálaflokkar hafa bent á nauðsyn þess að skipta um gjaldmiðil og að ekki sé lengur hægt að notast við krónuna. Það er aðeins einn flokkur hefur komið með raunverulega lausn á gjaldmiðilsvandamálinu sem felur í sér aðild að Evrópusambandinu og upptöku Evru. Þetta er eitt af stórum málunum sem við þurfum að setja á dagskrána sama hvort við teljum að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan eða utan ESB. Eitt ættu allir flokkar að geta sameinast um en það er að færa valdið til þjóðarinnar, fara í samningaviðræður, sjá hvaða árangri við náum og ef hann er talinn viðunandi þá á efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning við ESB.

Bráðaaðgerðir
Aðild að Evrópusambandinu leysir að sjálfsögðu ekki þann bráðavanda sem nú steðjar að okkar þjóðfélagi. Við erum að horfast í augum við atvinnuleysi sem er að nálgast tveggja stafa tölu og við verðum að bregðast við. Samfylkingin leggur höfuðáherslu á að útrýma atvinnuleysi og vill hrinda í framkvæmd áætlun núverandi ríkisstjórnar um 6000 ný störf auk þess að skapa betri skilyrði fyrir fyrirtæki til atvinnusköpunar. Samfylkingin leggur upp með fjölþætt atvinnuátak um allt land þar sem lítil, meðalstór og ný fyrirtæki fá stuðning Atvinnuleysistryggingasjóðs og Vinnumálastofnunar til að ráða tímabundið starfsmenn í atvinnuleit. Rýmka þarf heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga vegna viðhaldsverkefna af ýmsu tagi þannig að þær nái einnig til leiguhúsnæðis í eigu félaga, félagasamtaka og sveitarfélaga. Samfylkingin vill forgangsraða nýjum framkvæmdum þar sem lögð verður áhersla á mannaflsfrekar framkvæmdir, s.s. í byggingaiðnaði og samgöngubótum. Einnig þarf að taka tillit til við úthlutun fjármagns úr opinberum sjóðum að horft verði til verkefna sem hafa í för með sér fjölda starfa. Full endurgreiðsla vegna viðhalds íbúðarhúsnæðis mun einnig auka atvinnu.


Fjölbreytt atvinnulíf
Kjarninn í stefnu Samfylkingarinnar er græn atvinnustefna. Við megum ekki blindast af þeim vanda sem nú steðjar og gleypa gagnrýnislaust einungis við stóriðjulausnum. Það er einmitt á þessum tímum sem við eigum að leggja áherslu á fjölbreytta atvinnusköpun. Við þekkjum orðið ansi mörg dæmi um hvernig einhæft atvinnulíf hefur leikið okkur grátt. Má þar nefna hugmyndir um Fjármálamiðstöðina Ísland. Við landsbyggðarfólk þekkjum líka vel til dæma um afleiðingar einhæfs atvinnulífs á byggðir. Við höfum horft upp á byggðarlög þar sem eitt fyrirtæki heldur á fjöregginu og ákvarðanir stjórnenda þess fyrirtækis skera úr um hvort fólk getur búið þar áfram eða ekki. Við skulum læra af reynslunni. Það var dapurlegt að hlusta á formann Sjálfstæðisflokksins lýsa því yfir í kappræðum í sjóvarpssal að lausnin í atvinnumálum þjóðarinnar fæli í sér byggingu tveggja álvera. Horfum til framtíðar. Við þurfum nýja hugsun þar sem mannauður, sjálfbær þróun, nýsköpun, rannsóknir og hugvit skapa grunnin að fjölbreyttu atvinnulífi og endurreisn efnahagslífisins. Við þurfum að nýta orkuna okkar þar sem best verð fæst fyrir hana til lengri tíma.

Veljum skynsamlegar leiðir í atvinnumálum og látum ekki glepjast af skammtíma lausnum sem binda okkur til framtíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband