Haustfílingur

Ég var alveg komin með ógeð á fyrirsögninni; Sundhöll Ísafjarðar.

Það er komið komið haust í mínum huga með rigningu, aðalbláberjasultu í hvert mál, fyrirheitum um léttari lífstíl og skólabyrjun hjá frumburðinum.  Hún er reyndar frekar róleg yfir því að vera byrja aftur í skólanum. Það er mér í fersku minni hvað mér þótti alltaf gaman að koma í skólann á haustin (þótt ég segði ekki nokkrum manni frá því - enda var það ekki kúl).

Ég get ekki ímyndað mér að það sé góður mórall í grunnskólanum þessa daganna, aðstoðarskólastjóranum sagt upp af pólitískum forsendum og það nýjasta að skólastjórinn búinn að segja upp. Það hlýtur að hafa verið erfitt að vera skólastjóri grunnskólans síðustu ár, í grunnskóla sem hefur rekin á afar hagkvæman hátt per nemanda miðað við aðra grunnskóla í landinu og í ofan álag þurft að búa við miklar hagræðingarkröfur að hálfu yfirmanna. Grunnskóli Ísafjarðar er ein af mikilvægustu stofnunum sveitarfélagsins og það er lágmark faglegar forsendur séu hafðar í fyrirrúmi þegar málefni hans eru rædd og sett í framkvæmd.

Dæturnar una sér vel og láta ekki óstjórn sveitarfélagsins hafa nein áhrif á sig. Sú eldri er staðráðin í því að vera dýralæknir en ekki er langt síðan að hana dreymdi um að verða kassadama í Bónus. Sú yngri er með mun einfaldari smekk - hún ætlar sér að vera prinsessa. Ætli prinsessunám sé lánshæft hjá lánasjóðunum?

 


Sundhöll Ísafjarðar

Eins og nafnið gefur til kynna er Sundhöll Ísafjarðar heiti á sundaðstöðu okkar Ísfirðinga sem stendur því miður ekki lengur undir nafni. Þegar ég nýtti Sundhöllina sem allra mest á árunum 1987-1993 þá var tíðrætt um að það ný sundlaug væri alveg að detta í burðarliðinn. Fylkir Ágústsson hefur skrifað nokkrar greinar um sama efni og fyrir rúmu ári síðan skrifaði hann grein þar sem hann bendir á að fyrstu hugmyndirnar um nýja sundlaug hafi komið fram fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1966.  Ekki sér enn fyrir endann á löngu biðinni...

Tveir fræknir íþróttamenn brugðu á það ráð að synda yfir Pollinn í síðustu viku til að vekja athygli á brýnni þörf.

Eftir minni bestu vitund eru ekki til nein framtíðarplön um uppbyggingu sundlaugar innan bæjarkerfisins. Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í fyrra voru allir stjórnmálaflokkar tilbúnir að ganga beint í málið og sáu bjartsýnustu menn fram á að sundlaugin yrði risin innan fárra mánaða.  Ég held að það sé kominn tími til að setjast niður og setja sér markmið um að hér verði byggð sundlaug innan tveggja ára, finna góða staðsetningu, kanna með fjármögnunarleiðir og hefjast handa.

sundlaug3_1

Sundlaugin á Tálknafirði


Lýst eftir svörtum buxum

Hornstrandaferðin var svakalega fín. Veðrið fór fram úr björtustu vonum og það rigndi ekki nema einn dag. Bakpokinn var reyndar full þungur og ég pakka pottþétt aðeins öðrvísi næst. Ajunglak fermingarsvefnpokinn verður líka heima í næstu ferð. Ég tapaði reyndar hlífðarbuxunum mínum á innri Hesteyrarbrúnum ef einhver skyldi eiga þar leið hjá - svartar Cintamani buxur í minni stærð- hófleg fundarlaun í boði (kaffi og með því).Smile Það sem toppaði alveg ferðina var þegar ég vaknaði eldsnemma á sunnudagsmorgunin á Hesteyri í glampandi sól og logni, ég byrjaði á því að draga dýnuna út á tún og horfi svo á rebba skoða umhverfið í dágóða stund.

 

Arna_jorundur_kalfatindar
Jörundur og Kálfatindar í bakgrunni
Atlavíkurskarð 
Fannarlág
Hesteyri
Hesteyri

 

rebbi
rebbi1

Hornstrandir

Nú styttist óðum í Hornstrandaferðina sem er búin að vera ansi lengi á teikniborðinu. Undirbúningurinn hefur því miður ekki tekist sem skyldi, en ætlunin var í byrjun vors að æfa stíft fram á ferð og skokka upp á hvern tindinn af öðrum, en ég afrekaði einungis að fara upp á Óshyrnu, Sauratinda og Naustahvilft (og ég kemst ekki enn í göngubuxurnar sem hlupu eitthvað í skápnum hjá mér í vetur).

En ferðaplanið er að sigla í Hornvík á fyrsta degi og rölta út á bjargið og skoða nærumhverfið. Á degi tvö er áætlaður labbitúr út í Hvanndal og svo í framhaldinu yfir í Hlöðuvík. Á þriðja degi á svo tölta yfir á Hesteyri og fjórði dagurinn verður tekinn á Hesteyri.  Það spáir víst töluverðri bleytu en ég er alveg viss um spáin á eftir breytast og sólin eigi eftir að sýna sig. Mottó ferðarinnar er: Enginn er verri þótt hann vökni.

 

 

arna_sauratindarisafjordur

Sauratindar

 

 

 

 Nausthvilft            


klukki klukk

Og ég sem þekkt fyrir að slíta keðjubréf... En 10 staðreyndir um sjálfa mig, listinn er hvorki í stafrófsröð né í forgangsröð.

1. Ég er með ókláraða meistararitgerð (en það stendur þó til bóta). 

2. Ég á 6 lopapeysur.

3. Ég sakna enn dönsku krónikunnar.

4. Hef einungis átt tvo bíla um ævina (með aðstoð Lýsingar); mitsubishi galant og núverandi bíl Subaru legacy. 

5. Ég les mjög mikið - en mest af dægursnakki.

6. Ég hef ekki enn lært að meta bókina Sjálfstætt fólk eftir Laxness (það kannski kemur með árunum).

7. Ég hef flutt 22 tvisvar sinnum um ævina - afrekaði að eiga heima tvo daga á Baldursgötunni.

8. Styð sænskann efnahag með því að versla í H&M þegar tilefni gefst til.

9.  Ég kaus Fönk-listann í bæjarstjórnarkosningunum 1996 (mamma heldur enn að ég hafi kosið Kvennalistann FootinMouth- en Fönklistinn hefur ekki boðið aftur fram svo ég hef kosið rétt síðan.) 

10. Ég kann að prjóna.

Ég á von á því að allir hafi verið klukkaði í kringum mig svo ég er ekkert að klukka neinn. 


Jóna Dreki

Það birtist frétt á bb.is í dag að Jóna Ben hafi verið rekin úr starfi aðstoðarskólastjóra við Grunnskólann á Ísafirði vegna skipulagsbreytinga. Þessi ákvörðun var tekin á síðasta bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 21.júní sl. Við bæjarfulltrúar Í - listans lögðum til að málinu yrði frestað til haustins þar sem forsendur ákvörðunarinnar voru brostnar en á það var ekki hlustað. Fulltrúar meirihlutans sátu hljóðir og færðu engin rök fyrir ákvörðun sinni.

Tillagan okkar sem var því miður felld var á þessa leið:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að fresta fyrirhuguðum breytingum á stjórnendaskipulagi Grunnskólans á Ísafirði þar sem útséð er að fyrirhuguð markmið með breytingunum koma ekki til með að nást.  Lagt er til að strax í haust verði skipaður starfshópur með fulltrúum frá fræðslunefnd, Skóla og fjölskylduskrifstofu, skólastjórnendum og kennara sem hafi það verkefni að fara yfir skipurit grunnskóla Ísafjarðarbæjar með það að markmiði að skoða leiðir að skilvirkara stjórnskipulagi og hagræðingu í rekstri. Starfshópurinn ljúki störfum fyrir mars 2008 svo að breytingarnar geti tekið gildi skólaárið á eftir, ef einhverjar verða.

Greinargerð:

Samþykkt var í fjárhagsáætlun ársins 2007 að breyta stjórnendafyrirkomulagi við Grunnskólann á Ísafirði með þeim hætti að segja upp öðrum aðstoðarskólastjóranum til að ná fram hagræðingu í rekstri og markvissara stjórnskipulagi. Útséð er að markmiðin koma ekki til með að nást úr þessu, má í fyrsta lagi rekja það til þess að of seint er farið af stað með breytinguna. Nú þegar er  hafin undirbúningur fyrir næsta skólaár og ekki er gert ráð fyrir þessum breytingum í þeim undirbúningi. Ljóst er að ef farið verið í þessar breytingar núna þá hefur það veruleg kostnaðaraukandi áhrif á grunnskólann. Í öðru lagi er ekki búið að finna mörgum verkefnum stað hjá öðru starfsfólki í nýju skipulagi sem eru nú á hendi núverandi aðstoðarskólastjóra og er hætta á því að þeim verði ekki sinnt nema með aukningu stöðugilda. Við vinnu við skipulagsbreytingar er æskilegt að horfa til annarra sveitarfélaga og bera saman rekstur annarra grunnskóla og skipulag við grunnskóla Ísafjarðarbæjar, með það fyrir augum að ná fyrrgreindum markmiðum.

Þessi fína tillaga var semsagt felld - það segir ansi margt!


Rannsóknarleiðangur á Óshyrnu

Við fórum nokkur úr vinnunni í gær á Óshyrnu (sem er fjall á leiðinni til Bolungarvíkur) í blíðskaparveðri. Þetta var nú ekki bara skemmti og heilsubótarferð, heldur líka rannsóknarleiðangur. Gliðnunin Óshyrnunni líka mæld. Óstaðfestar mælingar benda til þess að sprungan hafi stækkað um 1,5 mm síðan í haust. Það er eins gott að við erum að fá jarðgöng. Í för með okkur var einnig nemi í landsslagsarkitektúr að safna sýnum í grasamöppuna sína, svo í dag þekki ég bæði ljósbera og brjóstagras, en fyrir þekkti ég þjóðarblómið Holtasóley. Smile Þetta var mjög lærdómsríkt að fá að sjá alvöru vísindamenn að störfum.  Ég tók auðvitað nokkrar myndir til staðfestingar á afrekinu. 

IMG_237_minni
IMG_2344_minni
bbtr
IMG_2339_minni
IMG_2377_minni
IMG_2381_minni

Er ekki flutt á Eyjuna

Bloggfærslur eru ansi stopular þessa daganna, sennilega hefur það eitthvað að gera með veðrið og sumarið. 

Annars er ég stödd í borg óttans.... þori varla út úr húsiWink

Reykjavíkurlífið er þó alveg bærilegt. Ég er búin að vera nokkuð iðin á "Hlöðunni". Það var nokkuð skemmtilegt að koma þangað aftur eftir fimm ára fjarveru, sama lyktin og starfsmannaveltan lítil sem engin, þó er komin nýr matráður. Sama má segja um Odda, sama andrúmsloftið, sömu kennararnir og kaffistofan með sama starfsfólkið. Þetta er soldið eins og að koma heim en það vantar reyndar frábæra félagsskapinn sem fylgdi mér þá. 

Ég er reyndar búin með biðraðaskammtinn minn fyrir árið eftir að hafa verið í þriggja tíma bílaröð frá Grundartanga að Mosfellsbæ. Svona getur borgarlífið líka verið.

Er búin að læra taka strætó frá Kringlu og alla leið niður að Háskóla. Smile

Góða veðrið og sundlaugarnar gera lífið bærilegt.

Og síðast en ekki síst;  Útsölurnar eru að byrja....  spurning hvort ég rati nokkuð aftur heim. Tounge

Set hér inn netútgáfu af Skutli - því frábæra blaði. Útbreiðslu svæðið er enn bara Vestfirðir og fyrir þá sem hafa misst af blaðinu geta lesið það hér:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bleikir steinar á Ísafirði

IMG_2329_vefIMG_2330_vefIMG_2333_arnaIMG_2332_vef

Þessar myndir voru teknar á Silfurtorgi í dag, þegar hluti þingmanna Norðvesturkjördæmis fengu afhenta bleiku steinanna, hvatningarverðlaun Femínistafélagsins. Einar Oddur var mjög hrærður og átti ekki von á þessu (eins og allar alvöru fegurðardrottningar) eins og sjá má á myndunum. Kristján Andri félagi minn í Í-listanum tók við steinunum fyrir hönd föður síns, Guðjóns Arnars.  


mbl.is Níu þingmenn Norðvesturkjördæmis fengu bleika steina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

19. júní

Í dag eru 92 ár síðan að konu fengu kosningarétt á Íslandi

Þann 19. júní 1915 fengu konur sem voru 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Aldurstakmarkið skyldi lækka um eitt ár næstu 15 árin, eða þar til 25 ára aldri væri náð en það voru þau mörk sem almennur kosningaréttur karla miðaðist við. Sama dag fengu þeir karlar sem voru vistráðin hjú kosningarétt með sömu skilyrðum og konur. Ástæðan fyrir aldurstakmarkinu var sú að stjórnvöld (karlar) töldu hina nýju kjósendur ekki nægilega þroskaða til að takast á við kosningaréttinn og töldu að ef þeim yrði öllum hleypt að kosningaborðinu í einu gæti það haft ófyrirsjáanleg áhrif á niðurstöður kosninga.

Þessar takmarkanir voru á kosningarétt voru síðar felldar niður og árið 1920 verða karlar og konur jöfn að lögum að því er snertir kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Konur á listum
Árið 1908 sameinuðust kvenfélögin í Reykjavík um fyrsta kvennaframboðið á Íslandi. Fjórar konur skipuðu listann, þar á meðal Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og komust þær allar í bæjarstjórn - fyrstar kvenna hér á landi.

Árið 1922 hlaut Ingibjörg H. Bjarnason skólastýra kosningu til Alþingis, fyrst kvenna.

Árið 2003 eru konur á Íslandi kallaðar minnihlutahópur og í stærsta þingflokknum eru eingöngu 18% þingmanna konu

Verum bleik í dag!

Vestfirðingar eiga von á bleikum glaðningi í gegnum lúguna í fyrramáliðSmile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband