Það skiptir greinilega máli hvaðan gott kemur...

að mati samgönguráðherra.  Það kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að samþykkt stjórnar Faxaflóahafna um aðkomu að byggingu Sundarbrautar sé endurtekið efni frá árinu 2005 í tíð frá R-listanum. Þegar R-listinn fór með þetta fyrir samgönguráðherra var fálega tekið í hugmyndina en þegar Björn Ingi og Sjálfstæðisflokkurinn mættu með sömu samþykktina fyrir nokkrum dögum var þessu stórhuga frumkvæði mikið fagnað af forsætisráðherra og ekki síst samgönguráðherra. Svo það skiptir greinilega miklu máli hvaðan gott kemur og hvaða flokkar sitja við völd.

En þessi frétt minnti mig á framgöngu samgönguráðherra hér í Ísafjarðarbæ fyrir sveitastjórnarkosningar sl. vor. Sturla Böðvarsson skrifaði þá grein er birtist á bb.is,  þremur dögum fyrir kosningar í nafni Samgönguráðuneytisins. En þar segir hann orðrétt: 

Það er von mín að samgönguráðuneytið geti áfram átt gott samstarf við þá öflugu sveit sem leitt hefur bæjarmálin á Ísafirði undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna og þess öfluga bæjarstjóra Halldórs Halldórssonar. Halldór nýtur trausts og trúnaðar langt út fyrir raðir flokksmanna um landið allt sem afburðamaður á vettvangi sveitarstjórnanna. Í störfum sínum hefur hann unnið með það í huga að ná árangri og það hefur honum tekist svo sem við blasir á svo mörgum sviðum í Ísafjarðarbæ. Það er því mikilvægt að tryggja áfram sterka stöðu sjálfstæðismanna við stjórn bæjarmála á Ísafirði. Þannig eru hagsmunum íbúa bæjarins best tryggðir. Miklum árangri síðustu ára yrði fórnað með því að koma til valda ósamstæðum hópi þriggja flokka. Sá hópur á sér ekkert annað sameiginlegt en að komast til valda. Þessa uppskrift er búið að prófa með R-listanum í höfuðborginni. Það ætti að vera nægjanlegt víti til að varast.

Þarna hótar hann okkur Vestfirðingum við eigum í hættu að fórna hagsmunum okkar í samgöngumálum ef við kjósum ekki rétt. Hann lætur að því liggja, að kjósendur þurfi að velja á milli samgöngubóta eða Í listans.  Undir þetta allt saman skrifar hann í nafni Samgönguráðuneytisins, en ég hélt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar væru ráðherrar allra landsmanna, en ekki ráðherrar ákveðinna stjórnmálaflokka. Það er kannski nauðsynlegt að minna samgönguráðherrann á að nú sé árið 2007 og pólitískar hótanir ættu heyra sögunni til. Ég vona að hann verði málefnalegri í þeirri baráttu sem er framundan og beiti ekki samgönguráðuneyti okkar allra landsmanna í þágu eins stjórnmálaflokks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband