Færsluflokkur: Bloggar

Gleðitíðindi

Það verður forvitnilegt að fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðum næstu daga. Hvernig sem þetta fer vona ég að velferðarmálin verði sett í forgang.
mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvennaútreið

Það mætti halda að hér í Norðvesturkjördæmi byggju eingöngu karlar á milli fimmtugs og sjötugs, en engar konur og ekkert ungt fólk.....miðað við niðurstöðu alþingiskosninganna. Táningurinn í þingmannahópnum er Magnús Stefánsson sem verður 47 ára á árinu.

Þetta er alveg ótrúleg niðurstaða miðað við að það er árið 2007. Minn flokkur líkt og sumir aðrir flokkar voru ekki að standa sig í að jafna hlut kvenna og karla í efstu sætum á framboðslistum - VG var reyndar með konu í öðru og þriðja sætinu og Framsókn með konu í öðru og fjórða. Það eina sem er í stöðunni er að byrja að taka til í sínum eigin garði.

Það var skondið á fylgjast með fréttum á bb.is í dag um viðbrögð oddvita flokkanna.

Guðbjartur Hannesson oddviti Samfylkingarinnar:  Guðbjartur ánægður með gengið í NV kjördæmi.

Jón Bjarnason oddviti VG: Sterk staða okkar flokks á landsvísu sem og í Norðvesturkjördæmi er það sem stendur upp úr að loknum kosningum.

Einar Kristinn Guðfinnsson þingmaður Sjálfsræðisflokksins: Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegari þessara kosninga.

Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins var mjög þakklátur fyrir stuðninginn.

Svanlaug Guðnadóttir frambjóðandi Framsóknarflokksins: Getum ágætlega við unað.

Af þessu að dæma virðast allir nokkuð glaðir.  Ég er ekkert sérstaklega glöð með úrslitin. Ég hefði viljað fá Önnu Kristínu inn og það gekk ekki upp. En það þýðir ekkert að vera í fýlu - það eru ekki nema fjögur ár í næstu alþingiskosningar og ekki seinna vænna en að hefja undirbúning. 

 


Sólahringur í fyrstu tölur

Ég er að verða nokkuð spennt, og vona svo sannarlega að Félagsvísindastofnun hafi rétt fyrir sér. Kannanir Félagsvísindastofnunar hafa verið að benda til þess að það sé möguleiki fyrir okkur að ná Önnu Kristínu inn. Það yrði alveg frábært.

Þessi niðurstaða yrði alveg ásættanleg fyrir mig:

Framsóknarflokkur 1 (Magnús er alveg  ágætur)

Sjálfstæðisflokkur 3 (þrír hvítir miðaldra karlmenn - sem myndu alveg blómstra í stjórnarandstöðu)

Frjálslyndir 1 (Ég kann vel við Guðjón Arnar)

Samfylking 3 (Gutti, Kalli og Anna eru flott teymi)

Vinstri Græn 1 (Jón Bjarnason er líka fínn) 

Þetta eru að sjálfsögu mínar hugleiðingar miðað við könnun Félagsvísindastofnunar -

Ég var á plokkfiskfundi með Jóni Baldvin í hádeginu í dag sem var ansi kraftmikill. Hann var alveg í essinu sínu og gladdi mörg kratahjörtu. Það var alveg fullt út úr dyrum og fengu ekki allir plokkfisk sem vildu - en nóg var af kaffi og góðum boðskap.  Ég settist hjá JBH eftir fundinn og spurði hann um greinina sem hann skrifaði í Moggann í dag, undir yfirskriftinni Pólitískt slysavarnarfélag. Eftir að hafa skimað yfir greinina sá ég bara orðin Ómar, Íslandshreyfingin, fella ríkisstjórnina og fékk vægt fyrir hjartað og varð að fá skýringar á henni. Ég tók því þannig að hann væri að lýsa yfir stuðningi við Íslandshreyfinguna, en svo er ekki. Hann var semsagt að biðla til óánægðra sjálfstæðismanna sem geta ekki hugsað sér að kjósa Samfylkinguna um að kjósa þá Íslandshreyfinguna í XD. Mikið létti mér. JBH og Bryndís hafa komið vestur nokkuð ört síðasta árið og alltaf hef ég gaman að hlusta á hann hvernig hann talar að innlifun um jafnaðarstefnuna og Evrópusambandið. Ég er fegin að við erum enn bandamenn.

Ég hlakka til morgundagsins. Þá ætla ég að vera í essssinu mínu og merkja við X við S, og leggja mitt af mörkum að koma Önnu Kristínu inn á þing. 


Fjölmenningarsetur að meika það!

Laugardaginn 14. apríl s.l. veitti Samfylkingin Fjölmenningarsetri hvatningarverðlaun, og voru verðlaunin afhent á landsfundi flokksins í Egilshöll.  Veitt var viðurkenningarskjal og fjárstyrkur að upphæð 200.000 krónur.  Sjónarhóll, félag langveikra barna fékk einnig hvatningarverðlaun við sama tækifæri. Því miður var ekki flugfært þann dag og gat Elsa Arnardóttir forstöðukona  Fjölmenningarseturs ekki veitt verðlaununum viðtöku á landsfundinum.  En dag skiluðu verðlaunin sér í réttar hendur þegar sr. Karl V. Matthíasson frambjóðandi Samfylkingarinnar kom færandi hendi í höfuðstöðvar Fjölmenningarseturs (Íslands) í Þróunarsetri. Elsa er hörkukona, hún byrjaði sem eini starfsmaður Fjölmenningarseturs og hefur verið ansi dugleg að sækja sér verkefni og stöðugildi.  Við þyrftum að fá fleiri konur eins og hana til Vestfjarða.

Elsa og Kalli


Kosningabaráttan í fullu fjöri

Nú fer að sjá fyrir endann á kosningabaráttunni. Spurning hvað ég eigi að gera eftir vinnu í næstu logosamfviku... en það er orðinn fastur liður að kíkja í kaffi í kosningamiðstöðina til að taka púlsinn, hitta fólk og ræða pólitík.   Á föstudaginn ætlum við að slá út súpufundi Sjálfstæðisflokksins og bjóða upp á plokkfisk a la Maggi Hauks. Með plokkfisknum verður Jón Baldvin með erindi, sem er okkur vel kunnur. Ef ég þekki hann rétt þá verður rætt um jafnaðarstefnuna og ESB.  Semsagt uppskriftin að góðu hádegi á föstudaginn er eftirfarandi: Plokkfiskur a la Maggi + Jón Baldvin + góðar umræður

En þetta er ekki búið..... heldur ætlum við að halda fjölskylduskemmtun seinnipartinn á föstudaginn á Silfurtorgi, grillum pulsur og höfum gaman.

Ég er alveg í essssinu mínu. Grin


Gjaldfrjáls menntun frá leikskóla til háskóla

Ég skrifaði grein í 1.maí blað Skutuls sem er málsgagn Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ, ég læt hana flakka hér líka. Útbreiðsla Skutuls er enn takmörkuð við Ísafjarðarbæ en þetta flotta blað á að sjálfsögðu erindi út fyrir bæjarmörkin 

Landsfundur Samfylkingarinnar sem haldinn var 13.-14. apríl síðastliðinn samþykkti stefnuyfirlýsingu sem er einföld en fjallar um afar mikilvægt hagsmunamál fyrir barnafjölskyldur í landinu. Samfylkingin vill:  

Stuðla að því að öllum standi til boða gjaldfrjáls menntun frá og með leikskóla til og með háskóla.

Við höfum flest þá framtíðarsýn að byggja hér upp fjölskylduvænt samfélag. Fjölskylduvænt eyrarskjol31070417042samfélag felur m.a. í sér gott aðgengi að menntun, nálægð barna og foreldra, ásættanlegt þjónustustig, fjölbreytta afþreyingu og öfluga menningarstarfsemi. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á val á búsetu, auk atvinnutækifæra, sem eru grundvallarforsenda sérhverrar byggðar.

Dagvistunargjöld eru einnig hluti af þessari heildarmynd sem fólk horfir til þegar það velur búsetu fyrir sig og fjölskyldu sína. Á þessu sviði stöndum við okkur sem sveitarfélag afar illa, m.a. vegna erfiðrar fjárhagstöðu og annarrar forgangsröðunar.

Dagvistunargjöld í Ísafjarðarbæ eru þau hæstu á landinu og eru ekki til þess fallin að laða til okkar barnafjölskyldur.  Til samanburðar er ágætt að bera sig saman við sveitarfélögin Fjarðabyggð og Skagafjörð sem eru af svipaðri stærð og Ísafjarðarbær.

Kostnaður foreldra vegna leikskóla:

 

4 tímar

8 tímar

Fæði

Ísafjarðarbær

12.624

25.248

5.940

Fjarðabyggð

9.648

19.296

4.792

Skagafjörður

8.500

17.000

4.536

*Eftirtaldar tölur eru fengnar af heimasíðum sveitarfélaganna.

Samanburðurinn leiðir í ljós að það er rúmum 31% dýrara að vera með barn í átta tíma vistun í leikskóla í Ísafjarðarbæ en í Fjarðabyggð og tæpum  49% dýrara en í leikskólum í Skagafirði. Það sem kemur líka verulega á óvart í samanburðinum er hversu miklu dýrari maturinn er í leikskólum Ísafjarðarbæjar en í hinum sveitarfélögunum. Dagvistunargjöldin eru stór útgjaldaþáttur hjá mörgum fjölskyldum. Er þetta sú umgjörð sem við viljum bjóða íbúum okkar? Þar við bætist gamaldags vegakerfi eða sú staðreynd að við erum orðin láglaunasvæði, sem er heldur ekki til þess fallið að laða til okkar fólk.

Með því að stjórnvöld ákvæðu að gera leikskólamenntun barna gjaldfrjálsa tækjum við stórt skref til að jafna kjör foreldra og samkeppnisstöðu sveitarfélaga. Þetta þýðir að öll sveitarfélög í landinu geti boðið upp á gjaldfrjálsa leikskóla en ekki eingöngu þau sem eru vel stæð. Þetta er mjög mikilvægt fyrir fjárhagslega illa stödd sveitarfélög, eins og til dæmis Ísafjarðarbæ.

Öll börn eiga rétt á því að njóta þess mikilvæga starfs sem fer fram á leikskólum, starfs sem stuðlar að þroska þeirra og velferð óháð efnahag og félagslegum aðstæðum.

Sveitarfélögin verða að fá fjármagn frá ríkisvaldinu til þess að gera þetta kleift og ég treysti Samfylkingunni til að láta þetta stóra hagsmunamál fjölskyldna í landinu og fjárvana sveitarfélaga verða að veruleika.


Danska vorið

Ég var alveg búin að gleyma hvað danska vorið getur verið dejligt. Veðrið lék alveg við mig enda leiðist mér ekki sólin. Eins stigs hiti og næðingur beið mín heima. Fróðleg og skemmtileg ferð að baki.

Það styttist nú heldur betur í kosningar og aðeins fimm dagar til stefnu. Til að vera alveg viss um hvað ég ætti að kjósa tók ég próf sem er að finna á heimasíðu Bifrastar: http://xhvad.bifrost.is/ 

Útkoman var eftirfarandi:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 37.5%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 40%
Stuðningur við Samfylkinguna: 87.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 25%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 59%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 80%

Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Samfylkingarinnar!

logosamf

Ég efaðist reyndar ekkert um skoðanir mínar - en enga síður skemmtilegt. Þetta er frekar spurning um hvaða spurningu ég svaraði rangt!Wink


Innri þekkingaröflun

Brottför til Kaupmannahafnar kl 7:15 í fyrramálið.  Framundan er fræðsluferð eða innri þekkingaröflun eins og það kallast á fína málinu. Viðkomustaðirnir eru Silkeborg, Kolding, Árósar og Frederica, eftir því sem ég best veit hafa þessir staðir verið að standa sig vel í svæðisbundinni þróun.

Vejret de kommende dage, weather forecast Denmark

Set hér inn veðurspána fyrir Danmörku þessa daga sem ég verð á danskri grundu - en það vill svo til að ég verð í fríi föstudag og laugardag, sólardaganna. Þeim ætla ég að eyða í Árósum í yfirlæti hjá góðum vinum. Það lítur allt út fyrir ljómandi góða ferð þrátt fyrir stóru skipulagsmistökin að vera í fríi á föstudaginn en þá er hin heilagi danski dagur Store Bededag - sem þýðir að allar búðir eru lokaðar - líka H&M!


Laus störf á Vestfjörðum

Það var gleðilegt að lesa atvinnusíður Moggans í dag, en þar voru auglýst ansi mörg störf á svæðinu. Meðal auglýstra starfa voru þrjú ný sem kynnt voru í svokallaðri Vestfjarðarskýrslu. Matís (auglýsandinn) hrós skilið fyrir skjót viðbrögð. Þá eru bara eftir 66 störf.

Við fengum slæmar fréttir frá Bolungarvík á föstudaginn - 48 manns sagt upp. Það hefur furðanlega lítið farið fyrir þessum tíðindum í fjölmiðlum. Tæp 69 störf í tillögum Vestfjarðarnefndar mega síns lítið í þessum samanburði. Samkvæmt lauslegri samantekt minni hafa tapast hér 112 störf á rúmu ári.

Við fulltrúar Í-listans í bæjarstjórn höfum oft fengið á okkur þau orð að vera svartsýn, tala niður ástandið, vera full af bölmóð og verið nefnd niðurrifsöfl. Við höfum á næstum öllum fundum ef ekki öllum fundum bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar rætt um atvinnumál, bent á það sem betur mætti fara og ekki síst komið með tillögur til uppbyggingar atvinnulífs. Læt hér fylgja með tillögur okkar í atvinnumálum.

Tillögur bæjarfulltrúa Í-listans í Ísafjarðarbæ um atvinnumál samþykktar í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í ágúst 2006 - mars 2007.

15. mars 2007: Tillaga um viðræður við Orkubú Vestfjarða um hitavatnsboranir í Tungudal og Engidal í Skutulsfirði.

15. mars 2007: Tillgaga um möguleika á nýtingu ferskvatns úr Vestfjarðagöngum til vatnsútflutnings og stofnunar bruggverksmiðju.

1. mars 2007: Tillaga um stofnun Háskóla Vestfjarða.

15. febrúar 2007: Tillaga um að styrkja og efla Ísafjarðarhöfn sem þjónustumiðstöð fyrir Austur-Grænland og möguleika á að umskipunarhöfn fyrir siglingar á Norðurhöfum verði staðsett á Vestfjörðum

15. febrúar 2007: Bókun um stuðning við hugmyndir um staðsetningu rannsóknarstofnunar í jarðkerfisfræðum á Ísafirði.

1. febrúar 2007: Tillaga um starfshóp til að vinna að stofnun Hornstrandastofu.

2. nóvember 2006: Tillaga um stuðning við uppbyggingu verknámsbrauta við Menntaskólann á Ísafirði.

5. október 2006: Tillaga um aukin umsvif og þjónustu Ísafjarðarhafna.

31. ágúst 2006: Tillaga um mótmæli við frestun vegaframkvæmda á Vestfjörðum.

Eins og má sjá af þessum lista höfum við verið nokkuð dugleg og við erum hvergi nærri hætt. Við munum halda áfram á að benda á það sem betur má fara og koma með fleiri uppbyggilegar tillögur.


Þar sem konur koma saman er gaman...

Við samfylkingarkonur ætlum að hittast miðvikudagskvöldið 25.apríl kl. 21:00 (semsagt í kvöld). Hittingurinn verður í kosningamiðstöðinni á Ísafirði. Tilefnið er að hittast og networka. Smile

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband