Atvinnustefna a la carte

Ég hef heyrt þá fullyrðingu nokkuð oft síðustu daga og vikur að við höfum ekki efni á því að hafna olíuhreinsistöð. Því er ég algjörlega ósammála. Ég tel að höfum valkosti og þurfum ekki að vera nauðbeygð undir aðra.

Dauði eða olíuhreinsistöð?  Við þurfum ekki að selja okkur svona ódýrt.

Háskóli Vestfjarða er eitt stærsta framfaramálið okkar.

Í dag eru á níunda hundrað manns sem stundar nám á Bifröst, 1397 nemendur voru í Háskólanum á Akureyri árið 2006 og 117 nemendur í Hólaskóla sama ár.  Þessar tölur ættu að fylla okkur bjartsýni þegar við erum að feta fyrstu skrefin í að stofnaður verði sjálfstæður Háskóli Vestfjarða. Áhrif háskólasamfélags mun hafa mikil áhrif á samfélag okkar, og þurfum við ekki annað en að líta til Hólaskóla, Bifrastar eða til Háskólans á Akureyri til sannfærast um mikilvægi málsins. Með nemendum mun að sjálfsögðu fylgja kennarar og þjónusta og verslun myndu eflast á svæðinu.  Menntun og rannsóknir eru forsenda nýsköpunar í atvinnulífinu.  Við þurfum að umbreyta samfélagi okkar úr því að vera frumframleiðslusamfélag í að verða þekkingarsamfélag, þess vegna ætti það að vera eitt af forgangsmálum að setja á fót hér frumgreinadeild samhliða hugmyndum um háskóla hafsins.

Uppbygging rannsóknarstarfsemi er okkur nauðsynleg til framþróunar, má þar nefna uppbyggingu rannsóknum tengdum hafinu, rannsóknum tengdum sögu okkar og menningu svo fátt eitt sé nefnt.

Netþjónabú myndi sóma sér vel í vestfirskri samfélagi. Vestfirðir eru sennilega ákjósanlegastir undir slíka starfsemi þar sem við erum utan jarðskjálfta- og eldgosasvæði.  Í-listinn hefur lagt fram ýtarlegar tillögur í atvinnumálum, m.a. hafa birst á bb.is svo ekki þarf að efast um hug okkar eða trú til atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Stjórnvöld verða að sjá til þess að grunngerðin sé í lagi.  Hugsum okkur ef;

- ljósleiðarinn væri hringtengdur

- sem og raforkukerfið okkar,

- við hefðum hér boðlegar samgöngur,

- að það væri jafnræði til náms,

- við hefðum leyfi til að nýta auðlindir okkar,

- við fengum að stunda viðskipti við útlönd óhindrað o.s.frv.

Þá væri ég ekki í efa um að byggð væri með blómlegasta móti á Vestfjörðum. Ég fæ það oft á tilfinninguna að stjórnvöld hafi verið að vinna gegn framþróun á svæðinu síðustu áratugi þegar staðreyndir málsins eru skoðaðar. Við þurfum góða grunngerð til þess að renna styrkari stoðum undir atvinnulífið og skapa ný tækifæri. 

Ég get ekki annað séð að þær hugmyndir um atvinnuuppbyggingu sem ég aðhyllist sé í fyllsta samræmi við markmið þess fyrirtækis sem ég starfa fyrir, sem er að efla atvinnulíf og mannlíf á Vestfjörðum.

Það að ég hafi ekki skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að gleyma ekki Vestfjörðum við úthlutun kolefnislosunarkvóta er ég ekki að skrifa undir dauðadóm Vestfjarða. Ég trúi því ekki að olíuhreinsistöð muni bjarga byggð á Vestfjörðum, en hins vegar trúi ég á okkur Vestfirðinga að bjarga okkur sjálf - ef við fáum tækifæri til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband