Færsluflokkur: Bloggar

Ríkisstjórnin fallin

Skoðanakönnunin kemur mér í stórum dráttum ekkert á óvart. Það reyndar kemur skýrt fram að Ómar Ragnarsson og hans félagar nýtur talsverts trausts, framboðið er einungis nokkra daga gamalt, stefnumál ekki komin fram og við vitum að þetta er einhvers konar hægri-grænn flokkur og samt eru 5% þjóðarinnar tilbúin að kjósa framboðið. Nú fer kosningabaráttan væntanlega á fullt skrið eftir páska. Mér hafa alltaf fundist kosningavorin vera mjög skemmtilegur tími, gaman hvernig samfélagið vaknar og umræðan fer af stað. Það er stórt verkefni framundan fyrir okkur Samfylkingarfólk fram að kosningum, við þurfum að sannfæra minnst 7% fleiri kjósendur í Norðvestur kjördæmi að Anna Kristín, Gutti og Kalli séu trúverðug til þess að vinna að hagsmunum okkar hér í kjördæminu. Nú held ég að við höfum náð botninum og nú sé leiðin bara upp á við.  Smile


mbl.is Íslandshreyfingin með 5% fylgi samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru innflytjendur hvalreki eða ógn fyrir samfélög á landsbyggðinni?

Er yfirskriftin á ráðstefnu Fjölmenningarseturs og Háskólaseturs Vestfjarða um innflytjendur í dreifbýli og áhrif þeirra á byggðaþróun.  Það er vel við hæfi að ráðstefnan verði haldin hér á Ísafirði, en tæplega 7% íbúa Vestfjarða eru með erlent ríkisfang. Ég þekki nú ekki hlutföllin í öðrum landshlutum, en það er væntanlega mjög hátt á Austurlandi tímabundið vegna þeirra miklu framkvæmda sem þar eru í gangi. En á Vestfjörðum eru Pólverjar fjölmennastir, svo koma Tælendingar, Filippseyingar og svo Þjóðverjar, en við Vestfirðingar eru með yfir 30 mismunandi ríkisföng. Á ráðstefnunni verða fluttir mjög fróðleg erindi af innlendum og erlendum fyrirlesurum sem eru mjög aktuel hér og fáum að heyra reynslu Kanada af innflytjendum í dreifbýli.    

Allt um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu Háskólaseturs http://www.hsvest.is/


Landsþingi sambandsins lokið

Yfirskrift þingsins var: Verkefnaflutningur frá ríki til sveitarfélaga. Flutt voru ágætis erindi um efnið og var mikill samhljómur meðal sveitarfélaga um þau hafi alla burði til að taka við fleiri verkefnum, en þeim þarf að fylgja fjármagn. Þeir málaflokkar sem liggjast beinast við eru málefni fatlaðra, öldrunarmál og rekstur framhaldsskólanna. 

Eitt af því sem kom fram á landsþinginu er að sveitarfélögin skulda meira heldur en ríkissjóður, sem er alveg ótrúlegt. Á meðan flest sveitarfélög ná ekki endum saman og geta í mörgum tilfellum ekki sinnt grunnþjónustu þá er ríkissjóður að safna peningum. Ekki má gleyma því að það er Alþingi sem setur lögin um grunnþjónustu. Þessi mynd er svo sannarlega ekki í lagi, það er eins og ríkisstjórnin sé að reka einkafyrirtæki sem kemur málefni sveitarfélaga ekkert við.

Mikið var rætt um viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hér er linkur á yfirlýsinguna og ég bendi sérstaklega á lið nr. 2 sem segir:

Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna, að því gefnu að afkoma ríkissjóðs leyfi, til þess að skoða með jákvæðum hætti möguleika á að ríkið vinni með sveitarfélögum, sem tekin eru að framfylgja fjármálareglum er þau hafa sett sér á grundvelli tillagna samkvæmt 1. tl. hér að framan, við að lækka skuldastöðu þeirra. Samráð verður haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um útfærslu þessa.

Þetta er alveg hárbeitt!

http://www.samband.is/files/9550721242007-03-22%20Viljayfirlýsing%20final.pdf

Ætli ég komist heim á morgun:

Suðvestan 8-15 m/s, él og hiti kringum frostmark. Suðaustan 8-10 í fyrramálið og snjómugga en 13-20 og rigning síðdegis á morgun og hiti 2 til 5 stig.


Farin í kaupstaðarferð

- heim til mömmu. En hér í Hafnarfirði viðrar ekkert alltof vel. Það leit nú ekkert sérstaklega vel út að ég kæmist suður, þar sem bæði flugleiðin og landleiðin voru lokuð. En ég komst að lokum og var komin seint í gærkveldi.  Ég hafði vonast til þess að ná í kjötsúpuna á Brú en það var búið að loka þegar við komust þangað. En kjötsúpan í Brú er alveg afbragð, sterk og matarmikil, svo ekki sé minnst á soðbrauðið.

Dagurinn í dag fór að mestu í innri þekkingaröflun og annað smálegt. Ég fór á ráðstefnu um framtíðarfræði og notkun hennar í stefnumótun. Það er nú ekki í frásögu færandi en það að ein af dæmisögunum sem einn fyrirlesarinn notaði var frá Ísafirði. Það fannst mér nokkuð áhugavert og eftir smá rannsóknarvinnu komst ég að því að fyrirlesarinn hafði hitt bæjarstjóra okkar daginn áður og ræddu þeir um lokun Marels og áhrif þess á samfélagið. Fyrirlesarinn sá sér leik á borði og notaði það dæmi í tengslum við sitt efni í dag. Svona er nú heimurinn lítill.   


Seðlabankann á Ísafjörð

Það hafa komið fjöldamargar hugmyndir að flutningi opinberra stofnanna út á land, og nú síðast um flutning Seðlabankans. Þetta er alveg brilliant hugmynd. Þarna er um að ræða vel launuð opinber störf sem geta unnist vel hér fyrir vestan. Ég held að Davíð myndi una sér vel hér í faðmi fjallanna, stutt fyrir hann að fara út í náttúruna þegar gengið er alveg að fara með hann.

En bendi á þessa síðu - http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/#entry-152120

Aðrar stofnanir sem við getum líka fóstrað eru: Fiskistofa, Þjóðskjalasafn, Landhelgisgæslan.

Opinber störf eru reyndar ekki allsherjar lausn á vandamálum okkar Vestfirðinga en þau hjálpa svo sannarlega til.

p.s. ellefu Samfylkingarþingmenn orðnir grænir, fimm vinstri grænir og einn framsóknarmaður.


Alþingi á síðustu metrunum

Samþykkt voru þrjú mál á lokaspretti Alþingis á laugardaginn sem vöktu sérstaklega athygli mína.

1. Þingsályktunartillaga Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um fela ríkisstjórninni að gera úttekt á möguleikum þess að efla norðanverða Vestfirði sem miðstöð þjónustu við vaxandi fiskveiðar við Austur-Grænland og skoða sérstaklega þann kost að þjónustumiðstöð og umskipunarhöfn fyrir siglingar í Norðurhöfum verði á Vestfjörðum. Haft verði náið samráð við heimamenn við gerð úttektarinnar.

Til hamingju Lilja - það er sko ekki á hverjum degi sem varamaður á Alþingi fær tillöguna sína samþykkta.

http://www.althingi.is/altext/133/s/0825.html 

2. Störf án staðsetningar. Þingsályktunartillaga lögð fram af þingmönnum Samfylkingarinnar. Tillagan er með þeim hætti að ríkisstjórninni er er falið að skilgreina öll störf á vegum ríkisins sem unnt er að vinna að mestu leyti eða möllu leyti óháð staðsetningu. Er tillagan lögð fram í því  í því skyni að:
    -      jafna aðstöðu fólks til að sækja um og sinna margvíslegum störfum á vegum hins opinbera,
    -      auka möguleika fólks af landsbyggðinni til að gegna störfum á vegum ríkisins með því að gera hæfu fólki mögulegt að búa víðar en í sveitarfélagi viðkomandi stofnunar,
    -      stækka hóp hæfra umsækjanda um störf á vegum ríkisins,
    -      auka skilvirkni og draga úr kostnaði í opinberum rekstri.

Gert er ráð fyrir að 300-400 opinber störf losni árlega sem eiga möguleika á því að geta flust út á land.

http://www.althingi.is/altext/133/s/0043.html  

3. Og síðast en ekki síst að fyrningarfrestur á kynferðisafbrotum gegn börnum er afnuminn með lögum. Mér skilst að þetta sé fyrsta málið með Ágúst Ólafur varformaður Samflylkingarinnar lagði fram. Frábært hjá honum!  

p.s. átta þingmenn Samfylkingarinnar orðnir grænir og fjórir Vinstri grænir


Grænu þingmennirnir

Inn á heimasíðu Framtíðarlandsins er hægt að óska eftir því að gera þingmann "grænan". Mér finnst vel til fundið hjá Framtíðarlandinu. Nú þegar eru sjö þingmenn orðnir grænir, fjórir vinstri grænir og þrír frá Samfylkingunni. Það verður gaman að fylgjast með litabreytingunum á síðunni, þá sérstaklega hjá framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum (og tveimur þingmönnum Samfylkingarinnar).

 


Aðalfundur Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ

Aðalfundur Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ var haldinn í dag í kosningamiðstöðinni okkar.  Að loknum hefbundnum aðalfundarstörfum voru atvinnu og byggðamál rædd, enda ekki vanþörf á miðað við ástand mála. Við fengum góða gesti til fundarins, Guðbjart Hannesson sem leiðir lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og Helgu Völu Helgadóttur sem er líka á listanum. Þau fluttu góða tölu um atvinnu- og byggðamál, og bentu á hvaða leiðir eru færar í þeim efnum. Mér finnst það mjög mikilvægt þegar stjórnmálamenn eru að ræða núverandi ástand að þeir komi leiðir til betrunar og það gerðu þau. 

Mér var bent á að ráðherrann okkar Einar Kristinn Guðfinnsson hafi verið að tala um áhugaleysi á ESB aðild á blogginu sínu, hann dregur þá niðurstöðu vegna dræmrar mætingar alþingismanna á opinn fund þar sem forsvarsmenn sjávarútvegsmála hjá ESB héldu erindi. Þetta er nokkuð merkilegt þar sem hann leggur að jöfnu að mæta ekki og áhugaleysi á málefninu, þetta er merkilegt fyrir þær sakir að hann sjálfur mætti ekki á opna borgarafundinn um atvinnu- og byggðamál sem haldinn var hér á Ísafirði fyrir viku. Spurning hvort hann hafi misst áhugann á Vestfjörðum!


Breytum vatni í öl

Við fulltrúar Í-listans voru soldið í vatninu á bæjarstjórnarfundinum í gær. Fyrst lögðum við fram tillögu um að fela bæjarstjóra að ganga til viðræðna við Orkubú Vestfjarða um næstu skref í leit að heitu vatni. Tilefnið að tillögunni voru tvær skýrslur um hitastigulsboranir í Bolungarvík og Álftafirði sem framkvæmdar voru sl. sumar. En niðurstöðurnar gefa til kynna að mikla líkur séu á því að heitt vatn í Skutulsfirði, nánar tiltekið í Engidal og Tungudal. Svo virðist vera að það sé sama heita vatnsæðin sem liggur í gegnum þessi þrjú sveitarfélög. Rekstrargrundvöllur nýrrar sundlaugar yrði talsvert öðrvísi ef hér fyndist heitt vatn.

Vatnsumræðunni var þó ekki lokið, heldur lögðum við líka fram tillögu nýtingu um kalda vatnsins. En hún er svohljóðandi:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að fela atvinnumálanefnd að láta nú þegar kanna möguleika á stofnun fyrirtækis til nýtingar ferskvatns úr Vestfjarðagöngunum. Í því sambandi verði í fyrsta lagi kannað hvort mögulegt er að selja vatnið úr landi í samstarfi við innlenda eða erlenda aðila og í öðru lagi hvort fýsilegt er að stofna bruggverksmiðju sem nýtt gæti vatnið úr göngunum til ölgerðar."

Greinargerð.  Það er ljóst að mikið magn hreins og ómengaðs vatns rennur stöðugt úr Vestfjarðagöngum og með minnkandi úrvinnslu sjávarafurða hér á Ísafirði þarf að leita nýrra leiða til að nýta þessa auðlind. Því er lagt til að atvinnumálanefnd hafi forgöngu um könnun á möguleikum til nýtingar vatnsins til framleiðslu og útflutnings.

Já, nú er bara að kanna hvort við getum breytt vatni í öl á arðbæran hátt!


Ýmsar skoðanir á Vestfjarðarnefndinni

Allt frá því að Geir Hilmar ákvað að skipa sérstaka Vestfjarðanefnd til að fjalla um leiðir í atvinnumálum okkar Vestfirðinga hafa komið fram margar raddir sem efast um nauðsyn þessarar nefndar, má þar nefna bæjarstjórann í Bolungarvík, bæjarstjórann í  Vesturbyggð og sveitarstjórann í Súðavíkurhreppi, og nú í morgun birtist grein á bb.is eftir forseta bæjarstjórnar  Bolungarvíkur sem var sama sinnis. Við fulltrúar Í - listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tökum undir þessar raddir og létum bóka eftirfarandi á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var í gær: 

Fulltrúar Í- listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsa yfir furðu sinni vegna skipan nefndar á vegum ríkistjórnarinnar sem hefur það hlutverk að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. Fulltrúar Í-listans  telja það vera tímasóun að skipa nefnd til að fjalla um tillögur sem liggja nú þegar fyrir, í því samhengi má nefna þær tillögur sveitarstjórna á Vestfjörðum sem lagðar voru fyrir ríkisstjórnina í byrjun febrúar og tillögur verkefnisstjórnar um byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Fulltrúar í - listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar skora á fulltrúa í nefnd ríkisstjórnarinnar að hraða störfum sínum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband